Sunday, October 9, 2011

Samband mitt við listgyðjuna eða goðið



Fann hérna til gamans dagbókarfærslu á rithringnum, frá því ég kláraði fyrstu þrjár bækurnar. Um samband manns við listagyðjuna eða goðið.




Draumakona 10. Oct 2009 kl 23:43


Já, þau geta verið æði stormasöm samböndin við listagyðjuna. Ósjaldan hefur maður grátið í koddann og öskrað á hana, en alltaf nást að lokum sættir sem eru yndislegri en hvað annað... En mér þykir þó mun skemmtilegra sambandið við listagyðjuna (þarf það endilega að vera gyðja má það ekki vera kynþokkafullt goð í tilviki gagnkynhneigðra kvenna?) heldur en við fólk sem virðist ætíð tilbúið til þess að reka rýting í bakið á manni. Það hefur listagoðið aldrei gert, alveg sama hversu mikið maður finnst hann hafa yfirgefið sig. Reyndar hefur það samt frekar verið þannig að manni finnst hann hafa svikið sig heldur en yfirgefið. Látið mann skrifa eitthvað sem maður taldi verið algert listaverk og daginn eftir er það bara rusl, en svo kannski næsta dag aftur orðið að meistarstykki. Svo á endanum verður maður vitfirrtur og kann engin skil á raunveruleikanum né því hvort að draumurinn hafi einu sinni réttur. Það er frekar þannig eins og hann flissi að baki manns, þar sem maður streðar við að koma því á blað sem hann hefur lagt fyrir mann. Hvíslað því blíðlega að manni að þetta sé það rétta. Hann líkist því oft á tíðum mun meira púka heldur en goði, en það er líka það sem er svo heillandi við hann. Hversu duttlungafullur hann er. Síðastliðna viku hefur mér fundist ég vera svíkja hann, þar sem ég tók mér smá hlé frá skrifum til þess að fara í tölvuleik. En höfundur á aldrei frí. Hann er alltaf annað hvort að skrifa eða hugsa um að skrifa eins og einn höfundur orðaði það og þannig hefur það alltaf verið hjá mér. En tómleikinn við að skrifa ekki er að æra mig. Allt sumarið og nú fram í október hef ég stanslaust verið að skrifa. Í raun alveg frá september á síðasta ári. Rekið mig að tölvunni þrátt fyrir að höfuðið á mér væri að springa eða augun að lokast. Rekið mig á fætur fyrir dögun. En þessi harka skilaði sér í því, að ég náði að klára bókina og því var ekki öll þessi vinna til einskis. Eða hvað...?

No comments:

Post a Comment